Hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla
Við bjóðum tvær gerðir hleðslustöðva fyrir rafmagnsbíla. Önnur er í álkassa og er ætluð til uppsetningar innan dyra, t.d. í bílskúr. Hin stöðin er fjölnota, færanleg, 100% vatnsheld og steypt í silikon.

Sem stendur flytjum við rafmagnskapla inn frá Bandaríkjunum og á þá eru lögð opinber gjöld sem við vinnum nú að því að fá afnumin, því yfirvöld hafa stutt innflutning og notkun rafmagnsbíla með afnámi ýmissa opinberra gjalda. Sumir kjósa að flytja kaplana inn sjálfir og í þeim tilvikum gefum við upplýsingar um þá gerð sem hentar best.

Um okkur Ragnar Þór Valdimarsson er hugbúnaðarsérfræðingur sem starfar hjá Decode. David Sandahl starfar sem iðnhönnuður og verkfræðingur hjá Össuri. Báðir eiga Nissan Leaf rafmagnsbíla, keyptu þá án hleðslustöðva og nota þess í stað eigin stöðvar.

Segja má að tilviljun valdi því að þessar stöðvar eru komnar í framleiðslu og sölu, því upphaflega var hugmyndin sú að smíða eingöngu fyrir eigin bíla hagnýtari, minni og fallegri stöðvar en þær sem til eru á markaði. Hinsvegar er mikill áhugi á þessum stöðvum, bæði innan lands sem utan, svo við ákváðum að svara eftirspurn og hefja framleiðslu á þeim.

Um hleðslustöðvarnar Hægt er að nota stöðvarnar fyrir alla rafmagnsbíla og stilla straum frá 8 amperum (A) upp í 80, sem gerir mögulegt að nota þær hvar sem er og stilla þær í samræmi við þann straum sem í boði er á hverjum stað.

Því hærri sem amper-talan er þeim mun skemmri tíma tekur að hlaða rafmagnsbílinn. Í sumum húsum er unnt að fá 32 amper, en ef notað er venjulegt þvottavélatengi er stöðin stillt á 20 amper. Á tjaldstæðum er til dæmis oft boðið upp á 16-20 amper og er stöðin þá stillt í samræmi við það. Ef notuð er venjuleg innstunga á heimili er hægt að stilla stöðina á þau 10 amper sem innstungan þolir.

Stöðvarnar hafa innbyggðan lekaliða og hefur mikil vinna verið lögð í að uppfylla viðurkennda staðla til að koma í veg fyrir bilun eða skemmdir til dæmis í íslenskri vetrarveðráttu. Einnig hefur mikil vinna verið lögð í hönnun og notagildi, þannig að stöðvarnar eru nettar og fyrirferðalitlar.

Munur á stöðvunum Innbyggt er búnaður í báðum stöðvunum sem gefur möguleika á að stýra þeim í gegnum App í öllum gerðum snjallsíma. Þróun á appinu er ekki lokið en til er beta útgáfa fyrir þá sem hafa áhuga á að prófa.

Báðar stöðvarnar leiða riðstraum (AC) og notast við hleðslubúnað sem er innbyggður í bílunum. Það fer eftir hleðslustöð bifreiðarinnar hversu hratt stöðin getur hlaðið

Stöðvarnar eru ólíkar í útliti og einnig er nokkur munur á notagildi þeirra.

Álstöðin er ekki færanleg og er eingöngu ætluð til uppsetningar innan dyra. Á henni er skjár sem sýnir t.d. framgang hleðslu, rafmagnsnotkun og fleira.

Silikon-stöðina er hægt að taka með sér hvert sem er og nota alls staðar þar sem hægt er að komast í rafmagn. Þar sem hún er fullkomlega vatnsheld er hægt að setja hana upp utan dyra eða innan eftir því sem hentar hverjum og einum.

.